Fara í efni  

Fréttir

Félagslegur fjölbreytileiki samfélaga, jafnvægi, áskoranir eða vannýtt sóknarfæri?

Félagslegur fjölbreytileiki samfélaga, jafnvægi, áskoranir eða vannýtt sóknarfæri?
Vel var mætt á ráðstefnuna. Mynd: Hjalti Árnason

Byggðaráðstefnan 2025 fór fram þann 4. nóvember í Skjólbrekku í Mývatnssveit.

Ráðstefnan bar yfirskriftina „Félagslegur fjölbreytileiki samfélaga, jafnvægi, áskoranir eða vannýtt sóknarfæri?“

Sigríður Elín Þórðardóttir, forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar, flutti setningarávarp og lagði áherslu á mikilvægi þess að tengja saman fræðilega og hagnýta þekkingu á byggðamálum og félagslegum fjölbreytileika.

Tilgangur ráðstefnunnar er að miðla þekkingu, skapa umræður og rýna ekki aðeins áskoranir heldur einnig vannýtt sóknarfæri í byggðaþróun“ sagði Sigríður Elín í ávarpi sínu.

Sigríður Elín Þórðardóttir. Mynd: HÁ

Hún minnti á að í núgildandi byggðaáætlun, sem samþykkt var samhljóða á Alþingi árið 2022, séu byggðamál skilgreind sem öll þau viðfangsefni sem hafa áhrif á lífsgæði og samkeppnishæfni landshluta – þar á meðal búsetu, atvinnu, menntun, menningu og samgöngur. Félagslegur fjölbreytileiki snúi hins vegar að mismunandi stöðu hópa í samfélaginu og aðgengi þeirra að gæðum, völdum og lífsgæðum.

Félagslegur fjölbreytileiki og byggðamál eru órjúfanlega tengd,“ sagði hún og nefndi að breytt aldurssamsetning þjóðarinnar, búsetumynstur og jafnréttismál kalli á sveigjanlegar lausnir og sterka innviði um land allt. Hún benti á að þrátt fyrir góða stöðu Íslands í jafnréttismálum sýni nýlegar rannsóknir að innflytjendur standi enn frammi fyrir áskorunum á vinnumarkaði, sérstaklega konur af erlendum uppruna.

Sigríður Elín hvatti til opinnar og málefnalegrar umræðu um þessi mál og varaði við skautun og upplýsingaóreiðu sem geti grafið undan trausti og samstöðu: „Við þurfum að nýta þann auð sem felst í félagslegum fjölbreytileika – mannauðinn í hverju byggðarlagi, sem er hreyfiafl nýsköpunar og samfélagslegra breytinga“.

Að loknu ávarpi Sigríðar Elínar tók Catherine P. Chambers frá Háskólasetri Vestfjarða við fundarstjórn og leiddi þar fjölbreyttan hóp fræðafólks, starfsfólks landshlutasamtaka og Byggðastofnunar, auk fulltrúa úr atvinnulífi og sveitarfélögum.

Erindi ráðstefnunnar voru mörg og fjölbreytt. Fjallað var um hvernig byggðarlögin í landinu geta nýtt fjölbreytileika íbúa til vaxtar og nýsköpunar sem og hvernig lýðfræði og samfélagsbreytingar hafa áhrif á framtíð byggðanna.


Breytt lýðfræði kallar á ný viðbrögð

Þorkell Stefánsson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, sagði í erindi sínu Lýðfræði – íbúaþróun að Ísland stæði frammi fyrir miklum lýðfræðilegum breytingum sem væru nú þegar farnar að hafa áhrif á byggðaþróun.
Hann benti á að öldrun samfélaga væri ein helsta áskorun íslenskra byggða og að breytingar væru þegar farnar að koma fram, sérstaklega í landsbyggðunum. Fæðingartíðni hefur verið undir viðhaldsmörkum í yfir tvo áratugi og sé nú komin niður í 1,6 börn á konu. „Aldurstré Íslendinga er drumblaga,“ sagði Þorkell og útskýrði að hlutfall eldra fólks vex hratt á meðan ungu kynslóðirnar eru fámennari.

Áhrifin eru víðtæk: færra vinnandi fólk þarf að standa undir vaxandi fjölda eftirlaunaþega, sem setur aukinn þrýsting á vinnumarkað, velferðarkerfi og heilbrigðisþjónustu. Þróunin er þó misjöfn eftir landshlutum – öldrunin gengur hraðast í dreifðum byggðum, þar sem Vestfirðir eru elsti landshlutinn. Þar hefur íbúum með íslenskt ríkisfang fækkað um nær fjórðung frá aldamótum, en innflytjendur hafa dregið úr áhrifum fækkunar og stuðlað að betra jafnvægi í aldurssamsetningu og atvinnuþátttöku.
Um allt land eru nú um 70 þúsund manns með erlent ríkisfang, sem jafngildir 18% íbúa, og meginhluti fólksfjölgunar síðasta áratugar – eða 71% – má rekja til komu nýrra íbúa til landsins. Þessi þróun hefur orðið veigamikill þáttur í efnahagslegum vexti á undanförnum árum.

Þorkell Stefánsson. Mynd: HÁ

Þorkell benti þó á að áhrif innflytjenda á aldurssamsetningu væru tímabundin, þar sem margir flytja aftur úr landi þegar starfsferli lýkur. Til að tryggja sjálfbærni til framtíðar þurfi samfélagið að ná betur að festa nýja íbúa í sessi og nýta hæfni þeirra til fulls.

Erindi Þorkels minnti á að lýðfræði sé ekki aðeins tölfræði heldur grundvöllur ákvarðanatöku um framtíð byggðanna. Með markvissum aðgerðum, aukinni inngildingu og nýtingu fjölbreyttrar hæfni geti íslensk samfélög mætt öldrun og fólksfækkun með nýjum tækifærum til vaxtar og nýsköpunar.

Byggðaráðstefnur, sem haldnar eru annað hvert ár, sameina fræðilega og hagnýta þekkingu til að efla sjálfbæra þróun byggða um land allt.

Byggðaráðstefnan 2025 fór fram í Skjólbrekku, Mývatnssveit þann 4. nóvember 2025.

Dagskrá og upplýsingar um erindi má finna HÉR.

 

 


Til baka

Fréttasafn

2025
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389