Fara í efni  

Fréttir

Fróðlegur dagur í DalaAuði

Fróðlegur dagur í DalaAuði
Umræðuhópar á íbúafundi

Miðvikudaginn 8. október hittist verkefnisstjórn DalaAuðs til að kynna sér árangur í styrktum verkefnum og til að hitta íbúa Dalabyggðar á árlegum fundi í verkefninu.

Tvö verkefni til atvinnusköpunar í dreifbýli Dalabyggðar sótt heim

Í Rauðbarðaholti tóku hjónin Ingibjörg Þóranna Steinudóttir og Einar Hlöðver Erlingsson á móti verkefnisstjórn og sýndu glæsilega smáspunaverksmiðju, Urði ullarvinnslu, sem þau hafa komið upp í uppgerðum útihúsum á bænum. Sala á ullarbandi bæði úr lambsull og ærull er komin vel af stað og í byrjun hafa þau fyrst og fremst selt til gesta/viðskiptavina sem sækja þau heim. Einnig eru þau með sölu á ullarbandi á vefsíðu fyrir starfsemina, sjá hér. Þau hafa fengið stuðning úr Frumkvæðissjóði DalaAuðs og Uppbyggingarsjóði Vesturlands við að koma aðstöðu og verksmiðjunni upp. Aðstaðan er öll hin glæsilegasta og full ástæða til að óska þeim hjónum til hamingju með metnaðarfullt verkefni.

Á bænum Ásgarði hafa hjónin Eyjólfur Ingvi Bjarnason og Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir komið upp myndarlegri grænmetisræktun auk hefðbundins búskapar. Þau fengu stuðning Frumkvæðissjóðs DalaAuðs til að koma upp aðstöðu við þjóðveginn neðan bæjarins til sjálfsafgreiðslu á grænmeti. Salan hefur gengið vel og þau selja stóran hluta framleiðslunnar með þessum hætti.  Húsfreyja tók á móti gestunum og var einkar ánægjulegt að sjá þetta metnaðarfulla framtak.

Glæsileg íþróttaaðstaða að rísa í Búðardal

Verkefnisstjórnarfulltrúum bauðst að ganga um salarkynni íþróttahússins sem þar er langt komið í byggingu. Bjarki Þorsteinsson, sveitarstjóri, sagði frá framvindu verkefnisins sem er einkar metnaðarfullt. Augljóst er að nýja aðstaðan mun gjörbreyta aðstöðu til íþróttaiðkunar á svæðinu og fram kom að íbúar eru fullir tilhlökkunar að taka húsið í notkun á fyrri hluta næsta árs.

Fróðlegur íbúafundur DalaAuðs í Dalabúð

Síðdegis setti Linda Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri DalaAuðs, fundinn og stýrði honum. Dagskráin hófst með kynningu Dr. Vífils Karlssonar á niðurstöðum kannana á viðhorfi landsmanna til sinnar heimabyggðar. Af niðurstöðunum má m.a. sjá að viðhorf og mat íbúa Dalabyggðar á þjónustu og möguleikum síns byggðarlags hafa breyst mjög mikið á síðustu árum og byggðarlagið er hástökkvari í heildarsamantekt viðhorfa í byggðarlögum um land allt. Það er einkar ánægjulegt að sjá þessa jákvæðu breytingu á viðhorfum á sama tíma og íbúar, sveitarfélag og landshlutasamtök hafa unnið ötullega að framfaramálum héraðsins, meðal annars fyrir tilstilli verkefnisins DalaAuðs.

Bjarnheiður Jóhannsdóttir var með hugvekju undir heitinu „Fjárfest í hugarfari“. Hún líkti samfélaginu við garð sem þyrfti að hlúa að og rækta svo það gæti þrifist. Hún kom m.a. inn á gildi þess að taka vel á móti fólki, hugsa um náungann með jákvæðu hugarfari og hlúa að íbúum með öllum tiltækum ráðum. Jákvætt hugarfar og viðmót geri alla hluti mun auðveldari og skemmtilegri fyrir íbúana. Hún taldi mikið hafa áunnist að þessu leyti, að samstaða í byggðarlaginu væri mikil og hvatti íbúa til að halda áfram að hlúa hvert að öðru og samfélaginu öllu.

Á dagskrá voru kynningar á tveimur frumkvæðisverkefnum til viðbótar sem hlotið hafa stuðning Frumkvæðissjóðs DalaAuðs. Hið fyrra var endurbygging og lagfæringar á aðstöðu við Dagverðarneskirkju. Sigurður Rúnar Friðjónsson hefur frá upphafi komið að verkefninu og sagði frá framvindu þess síðustu misseri. Sóknarnefndinni hefur tekist með undraverðum hætti að gerbreyta ásýnd kirkjunnar og nærumhverfis hennar og hefur aflað tuga milljóna króna til verkefnisins. Sigurður Rúnar telur framtíðarmöguleika í vandaðri upplifun ferðamanna mikla í tengslum við þennan einstaka stað sem Auður djúpúðga Ketilsdóttir valdi til að snæða dögurð á ferð sinni og fylgdarliðs hennar inn Hvammsfjörð.

Þau hjón Þórunn Ólafsdóttir og Haraldur Guðjónsson kynntu verkefni sitt, Dalahvítlauk, sem einnig hefur notið stuðnings frá Frumkvæðissjóði DalaAuðs. Þau hafa byggt upp myndarlega ræktun á hvítlauki og byggja á sérstakri aðferð til að bæta jarðveg og lífríki hans í uppbyggðum beðum m.a. með hjálpargróðri. Afraksturinn er einkar ljúffengur hvítlaukur, sem við eðlilegt veðurfar dafnar vel í Saurbænum. Sjá má síðu verkefnisins hér.

Góð staða í DalaAuði

Linda gerði grein fyrir helsta ávinningi verkefnisins og fram kom að mikið hefur áunnist og íbúar unnið ötullega að framfaramálum héraðsins, m.a. verkefnum sem skilgreind eru sem markmið í verkefnisáætlun DalaAuðs. Í lok fundarins voru umræður um markmið verkefnisins í hópum, þar gafst í leiðinni tækifæri til að koma með ábendingar og tillögur um breytingar eða viðbætur í áherslum.

Bjarki Þorsteinson, sveitarstjóri, flutti ávarp í lok fundar og kom einnig inn á mikinn árangur í vinnu Dalamanna að sterkara samfélagi í Dölunum. Hann taldi framtíð byggðarlagsins mjög bjarta um þessar mundir.

Myndasmiðir voru Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir

Húsnæði Urðar ullarvinnslu

Eigendur Urðar Ullarvinnslu

Aðstaða verkefnisins Beint frá skýli í Ásgarði

Í nýju íþróttahúsi í Búðardal

Á íbúafundi í DalaAuði

Vífill með erindi á íbúafundi

Gestir á íbúafundi DalaAuðs

Sigurður Rúnar kynnir framkvæmdir við Dagverðarneskirkju

Þórunn M. Ólafsdóttir og Haraldur Guðjónsson kynna Dalahvítlauk

Umræðuhópar á íbúafundi

Bjarki Þorsteinsson með ávarp í lok fundar


Verkefnið Brothættar byggðir er ein af aðgerðum Byggðaáætlunar, C.2, og markmið þess er að spornað verði við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum. Verkefnið byggir á samstarfi Byggðastofnunar, viðkomandi sveitarfélags, landshlutasamtaka og síðast en ekki síst íbúa hvers þátttökubyggðarlags. Því er einkum ætlað að styðja við frumkvæði og þátttöku íbúa til hagsbóta fyrir samfélagið í víðum skilningi.

 


Til baka

Fréttasafn

2025
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389