Fara í efni  

Fréttir

Íbúafundir í fimm byggðarlögum í janúar og febrúar

Íbúafundir í fimm byggðarlögum í janúar og febrúar
Frá íbúafundi á Klaustri

Þann 22. febrúar sl. var haldinn íbúafundur í Hrísey og var hann sá fimmti og síðasti í röð íbúafunda sem hófst í Breiðdal í verkefninu Breiðdælingar móta framtíðina, í nóvember sl., en aðrir fundir frestuðust fram yfir áramót af ýmsum ástæðum. Byggðarlög undir hatti Brothættra byggða voru alls sjö, en um áramót lauk formlega séð verkefninu Bíldudalur – samtal um framtíðina. Heimamenn á Bíldudal halda þó áfram með ýmis mál, meðal annars þau sem fengu styrki frá verkefninu.

Áður hefur verið gerð grein fyrir fundinum á Breiðdalsvík, sjá frétt hér.

Á fundinn á Klaustri í verkefninu Skaftárhreppur til framtíðar mættu um 40 manns, þar af þrír þingmenn. Fundurinn var samsettur og hluti viðfangsefna hans voru málefni sveitarfélagsins, annars vegar umfjöllun um menntastefnu og hins vegar var kynnt þarfagreining á húsnæði grunnskólans á Kirkjubæjarklaustri. Eirný Valsdóttir verkefnisstjóri kynnti stöðu verkefnisins Skaftárhreppur til framtíðar og að því loknu voru kynnt þau verkefni sem hlotið hafa styrk frá Brothættum byggðum, meðal annars verkefni Kind Adventure. Í lok fundar var fundargestum skipt í fimm hópa til að ræða nánar um niðurstöður þarfagreiningarinnar á skólahúsnæðinu. Betri nýting á húsunum er afar brýnt úrlausnarefni í samfélaginu og hefur margsinnis verið rætt á íbúafundum í verkefninu. Að loknumumræðum skiluðu þátttakendur inn blaði þar mismunandi valkostum var forgangsraðað. Gerð var rafræn könnun um sama efni í kjölfarið en niðurstöður hennar hafa enn ekki verið birtar.

Frá íbúafundi á Klaustri. Þangað mættu þrír þingmenn, Vilhjálmur Árnason, Ásmundur Friðriksson og Ari Trausti Guðmundsson. Hér er Ari Trausti með hljóðnemann. Ljósm.: Kristján Þ. Halldórsson.

Íbúafundur í verkefninu Öxarfjörður í sókn var haldinn í Lundi þann 18. janúar. Þangað mættu hátt í 40 manns. Kynnt voru fimm verkefni sem hlotið hafa styrki á vegum Brothættra byggða, m.a. verkefni um fuglamerki og aflestur, um örnefni í Öxarfirði og kjötvinnslu á Gilsbakka og verkefni sem miðar að því að finna lausn til að kæla vatn úr borholu sem hitaveitan nýtir.  Silja Jóhannesdóttir verkefnisstjóri fór yfir stöðu mála í verkefninu út frá þeim fjórum meginmarkmiðum sem sett hafa verið fyrir það. Hún opnaði einnig nýja heimasíðu íbúa héraðsins og kynnti. Að því loknu var þátttakendum skipt í umræðuhópa og meginmarkmiðin rædd og skoðuð. Komu fram ýmsar ábendingar og tillögur um breytingar eða viðbætur.

Frá íbúafundinum í Lundi. Hópstarf í lok fundar. Ljósm: Reinhard Reynisson.

Frá íbúafundinum í Lundi. Hópstarf í lok fundar. Ljósm: Reinhard Reynisson.

Verkefnið Glæðum Grímsey er skemmra á veg komið en í hinum byggðarlögunum. Frestun fundar má meðal annars rekja til þess að verkefnisstjórn hefur ítrekað þurft að hætta við för til Grímseyjar vegna slæms veðurútlits. Þar var haldið íbúaþing í byrjun maí 2016 og hefur Helga Íris Ingólfsdóttir verkefnisstjóri unnið drög að framtíðarsýn og markmiðum m.a. út frá niðurstöðum þingsins. Þessi drög voru kynnt á fundi þann 23. janúar og viðbrögð heimamanna fengin fram. Á fundinn mættu 24 manns og umræður voru líflegar og margar ábendingar bárust til viðbótar við markmiðssetninguna eða til breytinga. Þó svo Grímseyingar séu orðnir nokkuð ánægðir með fjarskiptasambandið þá bíða þeir enn eftir því að ríkisvaldið efni loforð um bættar samgöngur og úttekt á orkumálum. Eins var talsverð umræða um nýliðun í sjávarútvegi, um gámasvæðið, um húsnæðismál, heilbrigðismál, skóla- og fræðslumál og hvernig kynna mætti Grímsey betur sem áfangastað.

Frá íbúaþinginu í Grímsey í byrjun maí 2016. Ljósm.: Kristján Þ. Halldórsson

Frá íbúaþinginu í Grímsey í byrjun maí 2016. Ljósm.: Kristján Þ. Halldórsson

Á íbúafundi í verkefninu Raufarhöfn og framtíðin sem haldinn var á Raufarhöfn þann 16. febrúar mættu alls 23, þar af tveir þingmenn. Kynnt voru nokkur verkefni er hlotið hafa styrk úr Brothættum byggðum. Þar á meðal má telja verkefnið Gildaskálinn sem Ásdís Thoroddsen kynnti gegnum skype. Silja Jóhannsdóttir kynnti verkefni um sérstæð og mjög áhugaverð upplýsinga skilti sem búið er að hanna til uppsetningar í þorpinu og Daníel Hansen kynnti spennandi verkefni um safn og líkan um sögu Raufarhafnar sem byggir meðal annars á nýtingu hluta hinna svokölluðu SR-húsa. Auk þessara verkefna var verkefnið Arctic Coastline Route (ACR) kynnt, en það fjallar um strandleið allt frá Hvammstanga að Vopnafirði að írskri fyrirmynd. Silja Jóhannesdóttir verkefnisstjóri fór yfir stöðu markmiða verkefnisins og skipti þátttakendum í fjóra hópa, jafn marga meginmarkmiðunum og fjallaði hver hópur um eitt markmið. Á fundinum kom einnig fram að nú bjóðist íbúum Raufarhafnar að tengjast ljósneti, að Þekkingarsetur Þingeyinga verði með aðsetur í húsnæði grunnskólans og bókasafnið sé einnig flutt þar inn. Einnig var rætt um 50 ára afmæli félagsheimilisins Hnitbjarga og skýrt frá mannabreytingum í verkefnisstjórn.

Íbúafundur á Raufarhöfn, Silja verkefnisstjóri útskýrir málin.

Íbúafundur á Raufarhöfn, Silja verkefnisstjóri útskýrir málin.

Í Hrísey mættu hartnær 30 manns á íbúafund í verkefninu Hrísey, perla Eyjafjarðar. Helga Íris verkefnisstjóri kynnti stöðu verkefna út frá þeim þremur meginmarkmiðum sem sett voru fram í verkefninu. Í umræðum kom m.a. fram að samgöngur, atvinna og skólamál séu brýnustu málefni samfélagsins og það sem þurfi að virka til að draga að ungt fólk. Einnig var nokkuð rætt um hvernig kynna megi betur kosti Hríseyjar til búsetu. Bent var á að mörg markmiðanna snúi að sveitarfélaginu og þar þurfi bragarbót á, t.d. séu sorpmál í ólestri. Einnig varð talsverð umræða um húsnæðismál og möguleika í ferðaþjónustu. Á fundinum voru kynnt tvö verkefni sem hlutu styrk á vegum Brothættra byggða. Annars vegar verkefni um menntasetur í Hrísey sem gengur út á það að laða að ungt fólk sem er í fjarnámi og bjóða upp á húsnæði, vinnuaðstöðu og námsaðstoð og hins vegar verkefni um landnámsegg, sem eru vistvæn egg frá hænsabúi í Hrísey, hugsað fyrir sælkeramarkað. Í lok fundar var þátttakendum skipt í fjóra hópa sem ræddu skólamál, umhverfismál, samgöngur og málefni eldri borgara.

Íbúafundur í Hrísey, Helga Íris fer í gegnum markmið verkefnsins.

Íbúafundur í Hrísey, Helga Íris fer í gegnum markmið verkefnsins.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389