Fréttir
Jú víst! Kraftur í Kaldrana, íbúar fjölmenntu á íbúafund
Kraftur, jákvæðni og lausnamiðun einkenndu íbúafund sem haldinn var þriðjudaginn 11. nóvember sl. í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Íbúar Kaldrananeshrepps fjölmenntu á fundinn þar sem á dagskrá var að fylgja eftir hugmyndum íbúa um eflingu samfélagsins sem spruttu fram á tveggja daga íbúaþingi sem haldið var í októberbyrjun. Íbúaþingið markaði upphaf þátttöku íbúa í byggðaþróunarverkefninu Jú víst! Kraftur í Kaldrana.
Verkefnisáætlun Jú víst! Kraftur í Kaldrana
Verkefnisstjórn hefur, undanfarnar vikur, unnið að mótun svokallaðrar verkefnisáætlunar, sem byggð er á skilaboðum íbúa frá íbúaþinginu. Valgeir Jens verkefnisstjóri kynnti drögin að verkefnisáætluninni fyrir íbúum, þ.m.t. framtíðarsýn, SVÓT greiningu verkefnisstjórnar, fjögur meginmarkmið og samtals 61 starfsmarkmið sem falla undir meginmarkmiðin. Íbúum var því næst skipt í fjóra hópa þar sem umræður um verkefnisáætlunina voru líflegar og ábendingum komið á framfæri.
Að því loknu fékk verkefnisstjórn umboð til að ljúka við gerð verkefnisáætlunar að teknu tilliti til ábendinga íbúa, og gefa verkefnisáætlunina formlega út til birtingar. Segja má að verkefnisáætlunin verði leiðarljósið í verkefninu næstu fimm árin. Gert er ráð fyrir að árlega verði staða verkefnisáætlunar metin á íbúafundi þar sem íbúum munu gefast tækifæri til að setja fram ný starfsmarkmið, forgangsraða og/eða breyta starfsmarkmiðum.
Skilaboð íbúaþings – útgáfa greinargerðar
Sama dag og íbúafundurinn var haldinn voru skilaboð frá íbúaþingi, þ.e. greinargerð frá íbúaþinginu, gefin út og birt á vef Byggðastofnunar, sjá hér. Það var Sigurborg Kr. Hannesdóttir frá Ildi sem stýrði íbúaþinginu af röggsemi sem fyrr en hún tók greinargerðina saman. Sigurborg hefur komið að og stýrt vinnu á öllum íbúaþingum sem haldin hafa verið í Brothættum byggðum hingað til. Kaldrananeshreppur er sextánda byggðarlagið sem tekur þátt í verkefninu.
Niðurstöður íbúakönnunar
Kristján Þ. Halldórsson frá Byggðastofnun kynnti helstu niðurstöður íbúakönnunar sem lögð var fyrir íbúa, 18 ára og eldri, í septembermánuði. Niðurstöðurnar voru um margt jákvæðar og segja má að þær varpi skýru ljósi á hversu mikill samtakamáttur er á meðal íbúa í samfélaginu. Þátttakendur í könnuninni svöruðu því meðal annars til í opnum spurningum að mikil samstaða, samhugur, seigla og hjálpsemi ríki í samfélaginu. Á þeim grunni verður gott að byggja áframhaldandi vinnu í þessu nýja byggðaþróunarverkefni, Jú víst! Kraftur í Kaldrana.
Næstu skref
Um leið og verkefnisstjórn hefur uppfært verkefnisáætlunina að teknu tilliti til ábendinga íbúa og gefið hana út, mun verkefnið færast yfir í framkvæmdaáfanga. Í því felst meðal annars að opnað verður fyrir umsóknir í Frumkvæðissjóð Jú víst! Kraftur í Kaldrana í desember og gert er ráð fyrir að hægt verði að úthluta styrkjum til hvers kyns frumkvæðisverkefna íbúa fljótlega á nýju ári 2026.
Hér má sjá myndir sem teknar voru á íbúafundinum. Myndasmiðir voru Kristján Þ. Halldórsson og Helga Harðardóttir hjá Byggðastofnun.

Valgeir kynnti drög að verkefnisáætlun.

Kristján kynnti niðurstöður íbúakönnunar.

Helga kynnti Frumkvæðissjóð Jú víst! Kraftur í Kaldrana.

Verkefnisáætlun rýnd í hópum.

Hópavinna.

Hópavinna.

Líflegar umræður.

Verkefnisstjórn Jú víst! Kraftur í Kaldrana.
Verkefnið er ein af aðgerðum Byggðaáætlunar, C.2, og markmið þess er að spornað verði við viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðarlögum. Verkefnið byggir á samstarfi Byggðastofnunar, viðkomandi sveitarfélags, landshlutasamtaka og síðast en ekki síst íbúa hvers þátttökubyggðarlags. Því er einkum ætlað að styðja við frumkvæði og þátttöku íbúa til hagsbóta fyrir samfélagið í víðum skilningi.
Fréttasafn
- 2025
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

