Fréttir
Þróun tekna eftir svæðum birt í nýrri skýrslu og mælaborði
Atvinnuleysisgreiðslur lækkuðu um 57% milli áranna 2021 og 2022 á sama tíma og fjármagnstekjur jukust um 9%, launatekjur um 6% og heildartekjur einstaklinga um 3,4%. Þetta má m.a. sjá í mælaborði Byggðastofnunar og lesa um í skýrslu sem birt er í dag um tekjur einstaklinga eftir svæðum 2008-2022.
Byggðastofnun fylgist með byggðaþróun og helstu áhrifaþáttum hennar með úrvinnslu opinberra gagna og eigin gagnasöfnun. Gögn eru fengin af vef Hagstofu Íslands sem vinnur þau úr upplýsingum frá Skattinum og eru allar upphæðir á verðlagi ársins 2022. Frumgögnin eru aðgengileg á vef Hagstofunnar.
Heildartekjur einstaklinga námu 2.327 milljörðum króna árið 2022, þar af voru heildaratvinnutekjur nærri 1.700 milljarðar og er opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis-og félagsþjónusta stærsta atvinnugreinin með um 516 milljarða eða rúm 31%.
Hlutdeild atvinnutekna í heildartekjum er nokkuð mismunandi milli landshluta. Á Austurlandi voru atvinnutekjur 76% heildartekna einstaklinga en lægsta hlutdeild atvinnutekna var 68% á Suðurnesjum og 69% á Norðurlandi vestra. Sé litið til einstakra sveitarfélaga sést að árið 2022 voru atvinnutekjur á íbúa hæstar í Tálknafjarðarhreppi og Fjarðabyggð eða 5,4 milljónir kr. á ári og næst hæstar í Garðabæ og á Seltjarnarnesi 5,3 milljónir. Atvinnutekjur voru undir 3,3 milljónum á hvern íbúa í Húnavatnssýslum árið 2022 og höfðu lítið hækkað frá fyrra ári. Jafnframt voru atvinnutekjur á íbúa undir 3,7 milljónum á þremur tekjusvæðum til viðbótar, í Rangárvallasýslu, Borgarbyggð og Dölum og uppsveitum Árnessýslu og Flóahreppi en þar höfðu atvinnutekjur á hvern íbúa þó hækkað um 5-9% frá árinu 2021.
Mest aukning atvinnutekna 2021-2022 var í rekstri gisti- og veitingastaða 37% og í flutningum og geymslu 22%. Þessar greinar eru uppistaðan í ferðaþjónustunni sem tók við sér árið 2022 eftir mögur ár 2020 og 2021.
Á tímabilinu 2015 til 2022 jukust heildaratvinnutekjur í flestum atvinnugreinum um 20-55%. Mest hlutfallsleg aukning 2015-2022 var í fiskeldi, en heildaratvinnutekjur í greininni hækkuðu úr 2,6 milljörðum í 6,4 eða um 149%. Mjög mikil aukning atvinnutekna varð einnig í byggingastarfsemi árin 2015-2022 eða 92%.
Hlutdeild atvinnugreina í atvinnutekjum er töluvert ólík milli landshluta og enn fjölbreyttari ef horft er á tekjusvæði eða sveitarfélög. Framleiðsla án fiskvinnslu var áfram mikilvægust fyrir tvo landshluta, Vesturland og Austurland, þar sem hlutdeild greinarinnar í heildaratvinnutekjum árið 2022 var 18%. Flutningar og geymsla hefur lang hæstu hlutdeild á Suðurnesjum eða 18% og rekstur gisti- og veitingastaða hefur hæstu hlutdeild á Suðurlandi 9%. Fiskveiðar voru hlutfallslega mikilvægastar fyrir atvinnutekjur á Vestfjörðum árið 2022 þar sem hlutdeild greinarinnar var 13%, á Austurlandi var hún 11% og á Vesturlandi 10%. Þá hafði fiskvinnsla háa hlutdeild bæði á Vestfjörðum og Austurlandi, eða 11%.
Fjármagnstekjur geta verið mjög mismunandi eftir svæðum og árum því að fáir einstaklingar geta hagnast um háar upphæðir á stöku ári, svo sem vegna sölu fyrirtækja. Á Suðurnesjum var hlutfall fjármagnstekna 14% sem var hæsta gildi allra landshluta árið 2022. Árið 2021 var hlutdeild fjármagnstekna hins vegar 5% á Suðurnesjum en 12% á Suðurlandi og 11% á Vesturlandi.
Skýrsla Byggðastofnunar inniheldur eingöngu helstu niðurstöður en í mælaborði sem kemur út samhliða skýrslunni er hægt að skoða tölur um stöðu og þróun tekna eftir svæðum og kyni. Þar er jafnframt hægt að skoða hlutdeild atvinnugreina í atvinnutekjum eftir svæðum.
Samkvæmt gildandi byggðaáætlun og lögum um Byggðastofnun á stofnunin að fylgjast með byggðaþróun og helstu áhrifaþáttum hennar með úrvinnslu opinberra gagna og eigin gagnasöfnun.
Fréttasafn
- 2024
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2023
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2022
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2021
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2020
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2019
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2018
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2017
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2016
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2015
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2014
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2013
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2012
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2011
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2010
- janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
- 2009
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2008
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
- 2007
- mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
- 2006
- janúar febrúar mars maí júní ágúst september
- 2005
- janúar febrúar mars júní október nóvember desember
- 2004
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
- 2003
- janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember