Fara í efni  

Fréttir

Úthlutun úr Byggðarannsóknasjóði

Úthlutun úr Byggðarannsóknasjóði
Þóroddur Bjarnason tilkynnir um Byggðarannsóknasty

Úthlutun úr Byggðarannsóknasjóði var kynnt á ársfundi Byggðastofnunar sl. föstudag í Vestmannaeyjum. Breytingar á atvinnuháttum, valdefling ungmenna, velferð innflytjenda og samstarf sveitarfélaga eru þau verkefni sem stjórn Byggðarannsóknasjóðs ákvað að styrkja árið 2015.

Byggðarannsóknasjóður var stofnaður haustið 2014 og er fjármagnaður af fjárlagalið byggðaáætlunar og með framlagi frá Byggðastofnun. Til úthlutunar árið 2015 voru 10 m.kr. Stjórn sjóðsins er skipuð af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem jafnframt fer með byggðamál, og tók hún til starfa í janúar 2015. Auglýst var eftir umsóknum í sjóðinn í byrjun febrúar og alls bárust 26 umsóknir áður en umsóknafrestur rann út þann 8. mars. Umsóknirnar voru afar fjölbreyttar og flestar uppfylltu þær skilyrði sjóðsins.

Stjórn Byggðarannsóknasjóðs ákvað að styrkja fjögur verkefni. Verkefnin eru:

  • Byggðir og breytingar – atvinnuhættir íslenskra þéttbýlisstaða í fortíð, nútíð og framtíð. Styrkupphæð 2 m.kr. Umsækjandi er Þekkingarnet Þingeyinga.
  • Lýðræðisvitund og valdefling ungmenna á landsbyggðinni. Styrkupphæð 3 m.kr. Umsækjandi er Þekkingarsetrið Nýheimar.       
  • Nýir íbúar í norðri: Hamingja og velferð innflytjenda á Norðurlandi. Styrkupphæð 3 m.kr. Umsækjandi er Markus Hermann Meckl (Háskólinn á Akureyri).
  • Samstarfsverkefni sveitarfélaga. Styrkupphæð 2 m.kr. Umsækjandi er Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.

Stutt lýsing á hverju verkefni:

Byggðir og breytingar – atvinnuhættir íslenskra þéttbýlisstaða í fortíð, nútíð og framtíð

Sjávarþorp og -bæir um landið eiga það sameiginlegt að hafa myndast vegna breytinga á atvinnu- og búsetuháttum landsins. Atvinna og búseta færðist frá mörgum og smáum einingum í sveitum landsins (sveitarbæjum/-býlum) yfir í þéttbýliskjarna sem skópu betri búsetu- og atvinnuskilyrði og uppfylltu frekar þarfir íbúa á hverjum stað og tíma. Sú spurning er óumflýjanleg í ljósi byggðaþróunar síðustu ára hvort breytingar á atvinnu- og búsetuháttum nútímans valdi hnignun sömu sjávarþorpa og -bæja með áþekkum hætti og breytingarnar sem skópu þessar byggðir. Þessi rannsókn fæst við þessa stóru spurningu um áherslur í búsetu og atvinnuháttum þorpa/bæja á Íslandi í framtíðinni.

Lýðræðisvitund og valdefling ungmenna á landsbyggðinni

Atgervisflótti ungmenna er víða vandamál á landsbyggðinni þar sem ungt fólk í leit að tækifærum þarf að velja á milli þess að dvelja í heimabyggð eða flytjast búferlum. Menntunarkostir og atvinnutækifæri ráða miklu um ákvörðunina en ekki síður samfélagsgerð í heimabyggð og virkni ungmenna. Rannsóknir sýna að samfélagsþátttaka ungmenna og tengsl þeirra við samfélagið er víða takmörkuð og það virðist hvort heldur eigi við um félagslíf eða málefni sveitarfélagsins. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hugmyndir ungmenna til lýðræðis og valdeflingar og standa að valdeflingu sem er mótuð að þeirra hugmyndum. Að lokum að vinna handbók aðgengilega öllum þeim sem takast á við atgervisflótta. 

Nýir íbúar í norðri: Hamingja og velferð innflytjenda á Norðurlandi

Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á þá þætti sem geta stuðlað að því að útlendingar sem valið hafa að búa í dreifðum byggðum á Íslandi séu virkir og ánægðir þátttakendur í samfélaginu.  Í því augnamiði verða gerðar tilviksathuganir í þremur sjávarbyggðum á Norðurlandi þar sem leitast verður við að meta hamingju og velferð innflytjenda á þessum stöðum og hvernig þeir þættir tengjast viðhorfum annarra íbúa og þeim stuðningi sem samfélagið veitir innflytjendum.

Samstarfsverkefni sveitarfélaga

Samstarf sveitarfélaga hefur þróast með mismunandi hætti eftir landshlutum, bæði hvað varðar umfang og form. Kortlögð verða samstarfsverkefni á starfssvæðum landshlutasamtaka sveitarfélaga og kannað viðhorf sveitarstjórnarmanna til reynslu af samstarfinu. Helsta markmið verk­efnisins er að greina hvort tiltekin form samstarfs hafi reynst betur en önnur og hver vilji sveitar­stjórnarmanna er hvað varðar framtíð samstarfs. Netkönnun verður gerð meðal sveitarstjórnar­manna og framkvæmdastjóra sveitarfélaga og tekin viðtöl. Niðurstöður verk­efnisins eru hagnýtar fyrir framtíðar­stefnumótun um skipulag samstarfs og þjónustu sveitarfélaga og stofnana þeirra.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389