Fara í efni  

Fréttir

Vel sóttur íbúafundur í Árneshreppi

Vel sóttur íbúafundur í Árneshreppi
Frá íbúafundi í Árnesi

Mikill hugur í íbúum og velunnurum Árneshrepps til framfara kom fram á íbúafundi í Árnesi og einhugur um að ekki megi dragast lengur að bæta samgöngur í byggðarlaginu.

Það er ávallt gaman að sækja Árneshrepp heim. Einstök náttúra, kyngimagnað landslag og gestrisni íbúa laða gesti og gangandi aftur og aftur að þessu einstaka samfélagi. Verkefnisstjórn Áfram Árneshrepps stóð fyrir árlegum íbúafundi miðvikudaginn 16. ágúst í félagsheimilinu í Árnesi. Byggðaþróunarverkefnið hefur staðið yfir frá árinu 2017 og er nú í lokaáfanga en Byggðastofnun mun draga sig í hlé úr verkefninu um næstu áramót. Íbúar og aðrir velunnarar samfélagsins fjölmenntu á fundinn og tóku virkan þátt í umræðum um brýnustu hagsmunamál samfélagsins. Ánægjulegt var að sjá að tveir þingmenn kjördæmisins sáu sér fært að mæta á fundinn, þau Bjarni Jónsson og Halla Signý Kristjánsdóttir. Finna mátti samhljóm á fundinum um að allir fundargestir tækju höndum saman um að standa vörð um Árneshrepp og finna lausnir á þeim áskorunum sem byggðarlagið stendur frammi fyrir. Í því samhengi má nefna að stærsta baráttumálið er að framkvæmdum við Veiðileysuháls verði ekki seinkað enn frekar, en skv. drögum að nýrri samgönguáætlun sem ráðgert er að fari til umræðu á þingi í haust, er sú raunin.

Það er lífsspursmál fyrir byggð og mannlíf í Árneshreppi að unnið verði ötullega að samgöngubótum á næstu árum. Íbúar hafa beðið eftir vegabótum um langt skeið en það verkefni sem komið er lengst í undirbúningi er vegagerð um Veiðileysuháls. Enda er hálsinn mikill farartálmi. Búið er að undirbúa framkvæmdir þar með tilheyrandi rannsóknum og hönnun og í raun allt tilbúið til að bjóða verkefnið út. Skv. núgildandi samgönguáætlun er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árinu 2024 og afar brýnt er að við þær áætlanir verði staðið. Jafnframt töldu fundarmenn brýnt að kortleggja nú þegar mögulegar leiðir til að bæta samgöngur á milli Djúpavíkur og byggðarinnar norðan Reykjarfjarðar. Þar er Kjörvogshlíðin mikill farartálmi í dag.

Á fundinum voru samgöngumálin rædd í þaula og ýmsar hugmyndir að útfærslum og tillögum lagðar fram sem liðka mættu fyrir samgöngubótum innan byggðarlagsins. Þar má t.d. nefna að með auðveldum hætti væri hægt leggja slitlag á ákveðna vegarkafla að mati íbúa, en sem fyrr segir er þó Veiðileysuhálsinn brýnasta samgöngubótin að sinni.

Skúli Gautason verkefnisstjóri Áfram Árneshrepps setti íbúafundinn og stýrði honum af röggsemi. Fyrstur á mælendaskrá var Arinbjörn Bernharðsson formaður verkefnisstjórnar en hann fór yfir stöðu ýmissa mála s.s. stöðu hafnarframkvæmda og stöðu raforku-, fjarskipta- og hitaveitumála, en í flestum þessum málum hefur mikið áunnist. Hvatti hann fundargesti til virkrar þátttöku og samtals á fundinum. Þvínæst kynntu fulltrúar Byggðastofnunar þau Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson stöðu verkefnisins og vörpuðu ljósi á verkefni Brothættra byggða á landsvísu.

Skúli Gautason fór yfir ýmis málefni sem unnið hefur verið að í byggðarlaginu innan verkefnisins og velti upp mögulegum leiðum til að vinna áfram að framgangi byggðarlagsins. Í því samhengi hefur verið sett fram tillaga um að starfshópur, skipaður íbúum og velunnurum samfélagsins, fái það hlutverk að vinna áfram að hagsmunamálum Árneshrepps. Hann vinni að markmiðum verkefnisáætlunar og helstu baráttumálum samfélagsins, viðhaldi árlegum íbúafundum og almennt reyni að virkja sem flesta íbúa til þátttöku. Davíð Már Bjarnason steig næst á stokk og greindi frá hugmyndum undirbúningshóps að myndun slíks starfshóps. Fram kom að mikilvægt væri að starfshópurinn ynni grasrótarstarf, hópurinn yrði fjölbreyttur og fulltrúar væru tilbúnir til virkrar þátttöku. Á fundinum var lagt til að fimm til sjö fulltrúar myndu skipa starfshópinn og að hann tæki til starfa sem fyrst.

Í lok fundar ræddu fundargestir í fjórum hópum um eftirfarandi málefni: samgöngumál, atvinnumál, húsnæðismál og hlutverk og skipan fyrrgreinds starfshóps um eftirfylgni verkefnisins. Miklar og góðar umræður urðu í hópunum og þátttakendur greindu frá helstu atriðum í lok fundar. Jón Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Ströndum - Þjóðfræðistofu kvaddi sér hljóðs og kynnti starfsemi setursins og hvatti íbúa til að taka vel á móti starfsmönnum þess sem um þessar mundir eru að vinna að rannsóknarverkefni sem m.a. tekur til samspils mannlífs og náttúru í Árneshreppi og víðar. Unnið verður að rannsókninni á næstu misserum og ráðgert er að starfsmenn Þróunarsetursins komi á næstunni í Árneshrepp og taki m.a. viðtöl við íbúa vegna þessa. Jón lagði áherslu á að vinna af þessu tagi væri mikilvæg fyrir byggðarlög líkt og Árneshrepp og nágrannasveitarfélög og hvatti til samstöðu um slík verkefni.

Í lok fundar þakkaði Arinbjörn formaður ÁÁH fundargestum fyrir góðan fund og hvatti til áframhaldandi samstarfs og virkni íbúa og velunnarra Árneshrepps um að nýta öll tækifæri sem gefast til að þoka hagsmunamálum byggðarlagsins áfram. Brýnt væri að allir tækju höndum saman á þeirri vegferð.

Hér má sjá myndir frá íbúafundinum ásamt nokkrum myndum úr byggðarlaginu sem teknar voru á ferðalagi fulltrúa verkefnisstjórnar á þessum magnaða stað. Myndasmiður er Kristján Þ. Halldórsson hjá Byggðastofnun.

Nánari upplýsingar veita Helga Harðardóttir og Kristján Þ. Halldórsson, umsjónaraðilar Brothættra byggða hjá Byggðastofnun.


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389