Fara í efni  

Fréttir

Vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða 2014

Vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða 2014
Vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða 2014

Svæði daglegrar vinnusóknar eru mikilvæg svæði fyrir byggðaþróun. Innan þeirra sækir fólk daglega milli heimilis og vinnustaðar þannig að þau geta verið eðlilegri viðmiðunarsvæði en sveitarfélög eða landshlutar. Á vinnusóknarsvæði sjávarþorps getur aflabrestur verið stóráfall en störfin þar verið svo lítill hluti af störfum í landshluta að á þeim grunni mælist breytingin lítil. Torsótt var og er enn að tengja saman rafrænar upplýsingar um staðsetningu heimilis og vinnustaðar heimilisfólks og til þess að fá þessum vinnusóknarsvæðum lýst fékk Byggðastofnun síðla árs 2008 atvinnuþróunarfélögin átta til liðs við að greina vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða. Mótað var einfalt verklag við greininguna og byggt á staðarþekkingu og upplýsingaöflun starfsmanna atvinnuþróunarfélaganna.

Yfirlitskort yfir vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða á Íslandi 2008 var sett fram 2009, sýnir ystu mörk þekktrar daglegrar vinnusóknar og það var þróað áfram á árinu 2009 í samtarfi Byggðastofnunar og atvinnuþróunarfélaganna. Kortið hefur vakið athygli og verið notað í umræðunni þrátt fyrir takmörk sín og því ákvað Byggðastofnun í samráði við atvinnuþróunarfélögin að uppfæra kortið með sömu aðferð og áður í kjölfar breytinga á samgöngukerfi s.s. nýjum veggöngum og heiðavegum milli byggðarlaga. Ferjuleiðum hefur líka verið breytt en teljast ekki hafa breytt daglegri vinnusókn.

Unnið var að uppfærslunni á haustdögum 2011, nýtt kort sett fram í október 2011 og aftur í árslok 2014 með breytingum á Ströndum og Suðurlandi. Kortið sýnir ystu mörk daglegrar vinnusóknar beggja kynja. Rannsóknir gefa tilefni til að ætla að karlar færi þessi ystu mörk út, konur sæki styttri leið til daglegrar vinnu. Kortið sýnir ekki flutningakerfi en póst- og vöruflutningar eru daglega yfir mörk margra vinnusóknarsvæða, flutningur dagblaða og akstur með skólabörn.

Þrátt fyrir einfaldar reglur var greining á svæðunum þó hvorki einföld né einhlít því mörk sumra samliggjandi vinnusóknarsvæða eru óskýr, sum svæði skarast og sums staðar skarast jafnvel mörg vinnusóknarsvæði. Önnur vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða liggja langt frá næstu vinnusóknarsvæðum og þar eru mörkin augljós. Vegna þess hvernig að verkinu var staðið var höfuðborgarsvæðið ekki greint sem sérstakt vinnusóknarsvæði og er ekki enn. Til þess þarf aðra aðferð en suðvestursvæði Ísland 2020-áætlunarinnar, „Hvítá-Hvítá“, er markað sérstaklega. Á þessu svæði skarast vinnusóknarsvæði norðan, austan og sunnan við höfuðborgarsvæðið og nærtækt að álykta að þetta svæði allt sé vinnusóknarsvæði höfuðborgarsvæðisins.

Á yfirlitskortinu eru upplýsingar um vinnusóknarsvæði settar fram á einfaldaðan hátt. Í grófum dráttum er miðað við þéttbýlisstaði með 200 íbúa og fleiri og svæði sem skarast eru sum sameinuð. Á kortinu eru þannig sýnd 29 vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða og „Hvítá-Hvítá“ sýnt sem 30. svæðið. Íbúar sumra þéttbýlisstaða, t.d. Breiðdalsvíkur (nr. 21) og Kirkjubæjarklausturs (nr. 24), eru færri en 140 en sumir þéttbýlisstaðir með 1.500 til 2.500 íbúa eru ekki greindir með sérstök vinnusóknarsvæði s.s. Þorlákshöfn og Hveragerði því þau teljast samfallandi og innan vinnusóknarsvæðis Selfoss. Svæðin eru tölusett á uppdrætti og þeim lýst aðeins nánar hér á eftir.

Svæðin eru:

  1. Borgarnes
    Spannar Borgarfjarðardali, Mýrar, Skipaskaga og höfuðborgarsvæðið.
  2. Bifröst-Búðardalur
    Spannar Borgarfjörð og Dali að Búðardal. Dagleg vinnusókn er á milli Búðardals og Reykhóla og Hólmavíkur. Hefur breyst.
  3. Stykkishólmur-Grundarfjörður
    Vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaðanna á norðanverðu Snæfellsnesi, Hellisands, Rifs, Ólafsvíkur, Grundarfjarðar og Stykkishólms. Svæðin skarast mjög þannig að beinast liggur við að sýna þau sem eitt svæði. Fólk ferðast þó ekki daglega milli enda sameinaðs svæðis þess til þess að sækja vinnu frá heimili sínu. Að þessu leyti hagar svipað til á þessu sameinaða svæði og á vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaðanna við Eyjafjörð.
  4. Reykhólar
    Nær inn Berufjörð, suður til Búðardals og norður til Hólmavíkur. Hefur breyst.
  5. Patreksfjörður
    Vinnusóknarsvæði þéttbýlisstaða á sunnanverðum Vestfjörðum, Bíldudals, Tálknafjarðar og Patreksfjarðar. Frá Patreksfirði er dagleg vinnusókn suður á Rauðasand.
  6. Ísafjörður
    Svæði þéttbýlisstaða á norðanverðum Vestfjörðum, Þingeyrar, Flateyrar, Suðureyrar, Ísafjarðar, Bolungarvíkur og Súðavíkur. Rútuferðir eru þrisvar á dag (í október 2011) milli Þingeyrar og Ísafjarðar með millilendingu á Flateyri.
  7. Hólmavík
    Hólmavík inn í Kollafjörð og út á Drangsnes. Frá Hólmavík er dagleg vinnusókn yfir Steingrímsfjarðarheiði að Nauteyri við Djúp. (Álitamál var um þessa leið við gerð kortsins 2008 en daglegar samgöngur, akstur með skólabörn, hafa verið yfir heiðina.) Hefur breyst.
  8. Hvammstangi
    Frá Borðeyri í vestri að Vatnsdal í austri og Vatnsnestá í norðri. Hefur breyst.
  9. Blönduós
    Svæði Skagastrandar og Blönduóss, inn Vatnsdal og Langadal og skarast við vinnusóknarsvæði Sauðárkróks við Blönduvirkjun. Hefur breyst.
  10. Sauðárkrókur
    Frá Skagaströnd í vestri, Hólum og Hofsósi í austri, Skagafjarðardölum í suðri og skarast við vinnusóknarsvæði Blönduóss við Blönduvirkjun. Hefur breyst.
  11. Siglufjörður
    Nær inn í Fljót, að rótum Lágheiðar, um Héðinsfjarðargöng til Ólafsfjarðar og tengist þar svæði þéttbýlisstaðanna við Eyjafjörð. Hefur breyst.
  12. Akureyri
    Svæði þéttbýlisstaðanna vestan Eyjafjarðar, Ólafsfjarðar, Dalvíkur, Litla-Árskógssands og Hauganess og austan fjarðar, Grenivíkur og Svalbarðseyrar, skarast á Akureyri.
  13. Húsavík
    Nær austur um Tjörnes í Öxarfjörð og til suðurs um Laugar að Reykjahlíð og Mývatni.
  14. Kópasker
    Nær norður að Leirhöfn og inn í Öxarfjörð.
  15. Raufarhöfn
    Spannar láglendið næst Raufarhöfn.
  16. Þórshöfn
    Spannar Þistilfjörð að Rauðanesi. Vert er að nefna vertíðabundna atvinnusókn um eins tugar manna frá Raufarhöfn til Þórshafnar í um 3 mánuði (júlí-sept.) til síldar- og makrílvinnslu.
  17. Vopnafjörður
    Nær út með Vopnafirði beggja vegna og inn dalina.
  18. Bakkagerði
    Nær yfir Borgarfjörðinn.
  19. Egilsstaðir
    Nær norður um Jökulsárhlið og Hjaltastaðaþinghá, austur til Seyðisfjarðar og suður um dalina og til Reyðarfjarðar.
  20. Reyðarfjörður
    Spannar svæði þéttbýlisstaðanna, Neskaupstaðar, Eskifjarðar, Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar og Breiðdalsvíkur í suðri. Í norður nær svæðið til Egilsstaða og Seyðisfjarðar. Dagleg vinnusókn milli Seyðisfjarðar og álversins í Reyðarfirði er um 65 kílómetrar hvora leið og yfir tvo fjallvegi, Fjarðarheiði (620 m.y.s.) og Fagradal (350 m.y.s.). Hefur breyst.
  21. Breiðdalsvík
    Nær yfir Breiðdalinn.
  22. Djúpivogur
    Nær frá Berunesi í norðri suður yfir Álftafjörð.
  23. Höfn
    Nær yfir Lón, Nes og Mýrar.
  24. Klaustur
    Nær austan frá Fljótshverfi vestur til Víkur í Mýrdal.
  25. Vík
    Spannar Mýrdalinn, frá Múlakvísl í austri vestur að Jökulsá á Sólheimasandi.
  26. Vestmannaeyjar
    Nær yfir Heimaey sjálfa.
  27. Hvolsvöllur
    Nær austan frá Skógum, vestur um Hellu að Selfossi. Fellur að miklu leyti saman við vinnusóknarsvæði Hellu og Selfoss.
  28. Selfoss
    Austan frá Markarfljóti, norðan frá Haukadal og Laugarvatni og vestur til Þorlákshafnar, Voga og Hvergerði og til Reykjavíkur
  29. Keflavík
    Svæði þéttbýlisstaðanna á Reykjanesi, Keflavíkur, Keflavíkurflugvallar, Garðs, Sandgerðis, Njarðvíka og Voga. Nær til austurs og norðurs yfir höfuðborgarsvæðið.
  30. Höfuðborgarsvæðið
    Höfuðborgarsvæðið og „Hvítá-Hvítá“, suðvestursvæði Ísland 2020, afmarkað sérstaklega. Nær yfir hluta af vinnusóknarsvæðum nr. 1, 28 og 29

Hér má nálgast kortið í pdf útgáfu og hér má nálgast það í jpg útgáfu (7mb)

Nánari upplýsingar veitir Árni Ragnarsson, sérfræðingur á þróunarsviði í síma 455 5400 eða á netfangið arni@byggdastofnun.is


Til baka

Fréttasafn

2024
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2023
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2022
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2021
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2020
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2019
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2018
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2017
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2016
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2015
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2014
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2013
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2012
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2011
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2010
janúar febrúar mars apríl maí júní ágúst september október nóvember desember
2009
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2008
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október nóvember desember
2007
mars maí júní júlí ágúst september október nóvember
2006
janúar febrúar mars maí júní ágúst september
2005
janúar febrúar mars júní október nóvember desember
2004
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí ágúst september október
2003
janúar febrúar mars apríl maí júní júlí september október nóvember desember

Skráning á póstlista

  • Byggðastofnun  |  Sauðármýri 2  |  550 Sauðárkrókur 
  • Sími 455-5400
  • postur@byggdastofnun.is
  • Opið frá kl. 8:30-12:00 & 13:00-16:00  | kt. 450679-0389